- Project Runeberg -  Grænlendinga saga /

Tema: Icelandic Literature, Vikings
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

7.

Nú tekst umræða að nýju um Vínlandsferð því að sú ferð þykir bæði góð til fjár og virðingar.

Það sama sumar kom skip af Noregi til Grænlands er Karlsefni kom af Vínlandi. Því skipi stýrðu bræður tveir, Helgi og Finnbogi, og voru þann vetur á Grænlandi. Þeir bræður voru íslenskir að kyni og úr Austfjörðum.

Þar er nú til að taka að Freydís Eiríksdóttir gerði ferð sína heiman úr Görðum og fór til fundar við þá bræður Helga og Finnboga og beiddi þá að þeir færu til Vínlands með farkost sinn og hafa helming gæða allra við hana, þeirra er þar fengjust. Nú játtu þeir því.

Þaðan fór hún á fund Leifs bróður síns og bað að hann gæfi henni hús þau er hann hafði gera látið á Vínlandi. En hann svarar hinu sama, kveðst ljá mundu hús en gefa eigi.

Sá var máldagi með þeim bræðrum og Freydísi að hvorir skyldu hafa þrjá tigi vígra manna á skipi og konur umfram. En Freydís brá af því þegar og hafði fimm mönnum fleira og leyndi þeim og urðu þeir bræður eigi fyrri við þá varir en þeir komu til Vínlands.

Nú létu þau í haf og höfðu til þess mælt áður að þau mundu samflota hafa ef svo vildi verða, og þess var lítill munur. En þó komu þeir bræður nokkuru fyrri og höfðu upp borið föng sín til húsa Leifs. En er Freydís kom að landi þá ryðja þeir skip sitt og bera upp til húss föng sín.

Þá mælti Freydís: "Hví báruð þér inn hér föng yður?"

"Því að vér hugðum," segja þeir, "að haldast muni öll ákveðin orð með oss."

"Mér léði Leifur húsanna," segir hún, "en eigi yður."

Þá mælti Helgi: "Þrjóta mun okkur bræður illsku við þig."

Báru nú út föng og gerðu sér skála og settu þann skála firr sjónum á vatnsströndu og bjuggu vel um. En Freydís lét fella viðu til skips síns.

Nú tók að vetra og töluðu þeir bræður að takast mundu upp leikar og væri höfð skemmtan. Svo var gert um stund þar til er menn bárust verra í milli. Og þá gerðist sundurþykki með þeim og tókust af leikar og öngar gerðust komur milli skálanna. Og fór svo fram lengi vetrar.

Það var einn morgun snemma að Freydís stóð upp úr rúmi sínu og klæddist og fór eigi í skóklæðin en veðri var svo farið að dögg var fallin mikil. Hún tók kápu bónda síns og fór í en síðan gekk hún til skála þeirra bræðra og til dyra. En maður einn hafði út gengið litlu áður og lokið hurð aftur á miðjan klofa. Hún lauk upp hurðinni og stóð í gáttum stund þá og þagði. En Finnbogi lá innstur í skálanum og vakti.

Hann mælti: "Hvað viltu hingað Freydís?"

Hún svarar: "Eg vil að þú standir upp og gangir út með mér og vil eg tala við þig."

Svo gerir hann. Þau ganga að tré er lá undir skálavegginum og settust þar niður.

"Hversu líkar þér?" segir hún.

Hann svarar: "Góður þykir mér landskostur en illur þykir mér þústur sá er vor í milli er því að eg kalla ekki hafa til orðið."

"Þá segir þú sem er," segir hún, "og svo þykir mér. En það er erindi mitt á þinn fund að eg vildi kaupa skipum við ykkur bræður því að þið hafið meira skip en eg og vildi eg í brott héðan."

"Það mun eg láta gangast," segir hann, "ef þér líkar þá vel."

Nú skilja þau við það. Gengur hún heim en Finnbogi til hvílu sinnar. Hún stígur upp í rúmið köldum fótum og vaknar hann Þorvarður við og spyr hví að hún væri svo köld og vot.

Hún svarar með miklum þjósti: "Eg var gengin," segir hún, "til þeirra bræðra að fala skip að þeim og vildi eg kaupa meira skip. En þeir urðu við það svo illa að þeir börðu mig og léku sárlega en þú, vesæll maður, munt hvorki vilja reka minnar skammar né þinnar og mun eg það nú finna að eg er í brottu af Grænlandi og mun eg gera skilnað við þig utan þú hefnir þessa."

Og nú stóðst hann eigi átölur hennar og bað menn upp standa sem skjótast og taka vopn sín. Og svo gera þeir og fara þegar til skála þeirra bræðra og gengu inn að þeim sofundum og tóku þá og færðu í bönd og leiddu svo út hvern sem bundinn var en Freydís lét drepa hvern sem út kom. Nú voru þar allir karlar drepnir en konur voru eftir og vildi engi þær drepa.

Þá mælti Freydís: "Fái mér öxi í hönd."

Svo var gert. Síðan vegur hún að konum þeim fimm er þar voru og gekk af þeim dauðum.

Nú fóru þau til skála síns eftir það hið illa verk og fannst það eitt á að Freydís þóttist allvel hafa um ráðið og mælti við félaga sína: "Ef oss verður auðið að koma til Grænlands," segir hún, "þá skal eg þann mann ráða af lífi er segir frá þessum atburðum. Nú skulum vér það segja að þau búi hér eftir þá er vér förum í brott."

Nú bjuggu þeir skipið snemma um vorið, það er þeir bræður höfðu átt, með þeim öllum gæðum er þau máttu til fá og skipið bar, sigla síðan í haf og urðu vel reiðfara og komu í Eiríksfjörð skipi sínu snemma sumars. Nú var þar Karlsefni fyrir og hafði albúið skip sitt til hafs og beið byrjar og er það mál manna að eigi mundi auðgara skip gengið hafa af Grænlandi en það er hann stýrði.


Project Runeberg, Mon Oct 21 01:34:51 1996 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grenlend/07.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free