- Project Runeberg -  Grænlendinga saga /

Tema: Icelandic Literature, Vikings
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

4.

Nú bjóst Þorvaldur til þeirrar ferðar með þrjá tigi manna með umráði Leifs bróður síns. Síðan bjuggu þeir skip sitt og héldu í haf og er engi frásögn um ferð þeirra fyrr en þeir koma til Vínlands til Leifsbúða og bjuggu þar um skip sitt og sátu um kyrrt þann vetur og veiddu fiska til matar sér.

En um vorið mælti Þorvaldur að þeir skyldu búa skip sitt og skyldi eftirbátur skipsins og nokkurir menn með fara fyrir vestan landið og kanna þar um sumarið. Þeim sýndist landið fagurt og skógótt, og skammt milli skógar og sjóvar, og hvítir sandar. Þar var eyjótt mjög og grunnsævi mikið.

Þeir fundu hvergi mannavistir né dýra en í eyju einni vestarlega fundu þeir kornhjálm af tré. Eigi fundu þeir fleiri mannaverk og fóru aftur og komu til Leifsbúða að hausti.

En að sumri öðru fór Þorvaldur fyrir austan með kaupskipið og hið nyrðra fyrir landið. Þá gerði að þeim veður hvasst fyrir andnesi einu og rak þá þar upp og brutu kjölinn undan skipinu og höfðu þar langa dvöl og bættu skip sitt.

Þá mælti Þorvaldur við förunauta sína: "Nú vil eg að vér reisum hér upp kjölinn á nesinu og köllum Kjalarnes."

Og svo gerðu þeir.

Síðan sigla þeir þaðan í braut og austur fyrir landið og inn í fjarðarkjafta þá er þar voru næstir og að höfða þeim er þar gekk fram. Hann var allur skógi vaxin. Þá leggja þeir fram skip sitt í lægi og skjóta bryggjum á land og gengur Þorvaldur þar á land upp með alla förunauta sína.

Hann mælti þá: "Hér er fagurt og hér vildi eg bæ minn reisa."

Ganga síðan til skips og sjá á sandinum inn frá höfðanum þrjár hæðir og fóru til þangað og sjá þar húðkeipa þrjá og þrjá menn undir hverjum. Þá skiptu þeir liði sínu og höfðu hendur á þeim öllum nema einn komst í burt með keip sinn. Þeir drepa hina átta og ganga síðan aftur á höfðann og sjást þar um og sjá inn í fjörðinn hæðir nokkurar og ætluðu þeir það vera byggðir.

Eftir það sló á þá höfga svo miklum að þeir máttu eigi vöku halda og sofna þeir allir. Þá kom kall yfir þá svo að þeir vöknuðu allir.

Svo segir kallið: "Vaki þú Þorvaldur og allt föruneyti þitt ef þú vilt líf þitt hafa og far þú á skip þitt og allir menn þínir og farið frá landi sem skjótast."

Þá fór innan eftir firðinum ótal húðkeipa og lögðu að þeim.

Þorvaldur mælti þá: "Vér skulum færa út á borð vígfleka og verjast sem best en vega lítt í mót."

Svo gera þeir en Skrælingjar skutu á þá um stund en flýja síðan í burt sem ákafast hver sem mátti.

Þá spurði Þorvaldur menn sína ef þeir væru nokkuð sárir. Þeir kváðust eigi sárir vera.

"Ég hef fengið sár undir hendi", segir hann, "og fló ör milli skipborðsins og skjaldarins undir hönd mér og er hér örin, en mun mig þetta til bana leiða. Nú ræð ég að þér búið ferð yðra sem fljótast aftur á leið en þér skuluð færa mig á höfða þann er mér þótti byggilegast vera. Má það vera að mér hafi satt á munn komið að eg muni þar búa á um stund. Þar skuluð þér mig grafa og setja krossa að höfði mér og að fótum og kallið það Krossanes jafnan síðan."

Grænland var þá kristnað en þó andaðist Eiríkur rauði fyrir kristni.

Nú andaðist Þorvaldur en þeir gerðu allt eftir því sem hann hafði mælt og fóru síðan og hittu þar förunauta sína og sögðu hvorir öðrum slík tíðindi sem vissu og bjuggu þar þann vetur og fengu sér vínber og vínvið til skips síns.

Nú búast þeir þaðan um vorið eftir til Grænlands og komu skipi sínu í Eiríksfjörð og kunnu Leifi að segja mikil tíðindi.


Project Runeberg, Mon Oct 21 01:32:04 1996 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grenlend/04.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free