- Project Runeberg -  Grænlendinga þáttur /

Tema: Vikings, Icelandic Literature
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

4.

Biskup varð reiður mjög er hann spurði að spillt var skipinu og kallar til sín Einar Sokkason og mælti: "Nú er til þess að taka er þú hést með svardaga er vér fórum af Noregi að refsa svívirðing staðarins og hans eigna við þá er það gerðu. Nú kalla eg Össur hafa fyrirgert sér er hann hefir spillt eign vorri og sýnt oss í öllum hlutum óþekktarsvip. Nú er ekki að dyljast við að mér líkar eigi svo búið og eg kalla þig eiðrofa ef kyrrt er."

Einar svarar: "Eigi er þetta vel gert herra en mæla munu það sumir að nokkur vorkunn sé á við Össur, svo miklu sem hann er sviptur, þótt eigi sé vel í höndum haft þá er þeir sáu góða gripi er frændur þeirra höfðu átt og náðu eigi. Og veit eg varla hverju eg skal hér um heita."

Þeir skildu fálega og var reiðisvipur á biskupi.

Og þá er menn sóttu til kirkjumessu og til veislu á Langanes var biskup þar og Einar að veislunni. Margt fólk var komið til tíða og söng biskup messu. Þar var kominn Össur og stóð undir kirkju sunnan og við kirkjuvegginn og talaði sá maður við hann er Brandur hét og var Þórðarson, heimamaður biskups.

Þessi maður bað Össur vægja til við biskup "og vænti eg," sagði hann, "að þá muni vel duga en nú agir við svo."

Össur kvaðst ekki fá það af sér svo illa sem við hann var búið. Og áttu þeir nú um þetta að tala.

Þá gengu þeir biskup frá kirkju og heim til húsa og var Einar þar í göngu.

Og er þeir komu fyrir skáladyrnar þá snerist Einar frá fylgdinni og gekk einn í brott til kirkjugarðsins og tók öxi úr hendi tíðamanni einum og gekk suður um kirkjuna. Össur stóð þar og studdist á öxi sína. Einar hjó hann þegar banahögg og gekk inn eftir það og voru þá borð uppi. Einar steig undir borðið gegnt biskupi og mælti ekki orð.

Síðan gekk hann Brandur Þórðarson í stofuna og fyrir biskup og mælti: "Er nokkuð tíðinda sagt yður herra?"

Biskup kvaðst eigi spurt hafa "eða hvað segir þú?"

Hann svarar: "Sígast lét nú einn hér úti."

Biskup mælti: "Hver veldur því eða hver er fyrir orðinn?"

Brandur kvað þann nær er frá kunni að segja.

Biskup mælti: "Veldur þú Einar líftjóni Össurar?"

Hann svarar: "Því veld eg víst."

Biskup mælti: "Eigi eru slík verk góð en þó er vorkunn á."

Brandur bað að þvo skyldi líkinu og syngja yfir. Biskup kvað mundu gefa tóm til þess og sátu menn undir borðum og fóru að öllu tómlega og fékk biskup svo fremi menn til að syngja yfir líkinu en Einar bað þess og kvað það sama að gera það með sæmd.

Biskuð kvaðst ætla að það mun réttara að grafa hann eigi að kirkju "en þó við bæn þína skal hann hér jarða að þessi kirkju að eigi er heimilisprestur."

Og fékk hann eigi til fyrr kennimenn yfir að syngja en áður var um lík búið.

Þá mælti Einar: "Nú hefir orðið í stökki brang og ekki lítt af yðru tilstilli en hér eiga þó hlut í ofsamenn miklir og get eg að stórir úfar rísi á með oss."

Biskup kvaðst vænta að menn munu þessum ofsa af sér hrinda en unna sæmdar fyrir mál þetta og umdæmis ef eigi væri með ofsa að gengið.


Project Runeberg, Wed Aug 23 19:42:42 1995 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grthattr/4.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free