- Project Runeberg -  Grænlendinga þáttur /

Tema: Vikings, Icelandic Literature
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

1.

Sokki hét maður og var Þórisson. Hann bjó í Brattahlíð á Grænlandi. Hann var mikils virður og vinsæll. Einar hét son hans og var mannvænlegur maður. Þeir feðgar áttu mikið vald á Grænlandi og voru þeir þar mjög fyrir mönnum.

Einhverju sinni lét Sokki þings kveðja og tjáði það fyrir mönnum að hann vildi að landið væri eigi lengur biskupslaust og vildi að allir landsmenn legðu sína muni til að biskupsstóll væri efldur. Bændur játtuðu því allir.

Sokki bað Einar son sinn fara þessa ferð til Noregs, kvað hann vera sendilegastan mann þess erindis að fara. Hann kveðst fara mundu sem hann vildi. Einar hafði með sér tannvöru mikla og svörð að heimta sig fram við höfðingja.

Þeir komu við Noreg.

Þá var Sigurður Jórsalafari konungur að Noregi. Einar kom á fund konungs og heimti sig fram með fégjöfum og tjáði síðan mál sitt og erindi og beiddi konung þar til fulltings að hann næði slíku sem hann beiddi fyrir nauðsyn landsins. Konungur lét þeim það víst betur henta.

Síðan kallaði konungur til sín þann mann er Arnaldur hét. Hann var góður klerkur og vel til kennimanns fallinn. Konungur beiddi að hann réðist til þessa vanda fyrir guðs sakir og bænar hans "og mun eg senda þig til Danmerkur á fund Össurar erkibiskups í Lund með mínum bréfum og innsiglum."

Arnaldur kvaðst ófús til að ráðast, fyrst fyrir sjálfs síns sakir er hann væri lítt til fallinn og síðan að skilja við vini sína og frændur, í þriðja stað að eiga við torsóttlegt fólk. Konungur kvað hann því meira gott mundu eftir taka sem hann hefði meiri skapraun af mönnum.

Hann kveðst eigi nenna að skerast undan hans bæn "en ef þess verður auðið að eg taki biskupsvígslu þá vil eg að Einar sverji mér þess eið að halda og fulltingja rétt biskupsstólsins og eignum þeim er guði eru gefnar og hegna þeim er á ganga og sé varnarmaður fyrir öllum hlutum staðarins."

Konungur kvað hann það gera skyldu. Einar kvaðst mundu undir það ganga.

Síðan fór biskupsefni á fund Össurar erkibiskups og sagði honum sitt erindi með konungsbréfum. Erkibiskup tók honum vel og reyndust hugi við. Og er biskup sá að þessi maður var vel til tignar fallinn vígði hann Arnald til biskups og leysti hann vel af hendi. Síðan kom Arnaldur biskup til konungs og tók hann við honum vel.

Einar hafði haft með sér bjarndýri af Grænlandi og gaf það Sigurði konungi. Fékk hann þar í mót sæmdir og metorð af konungi.

Síðan fóru þeir á einu skipi, biskup og Einar. Á öðru skipi bjóst Arnbjörn austmaður og norrænir menn með honum og vildu og fara út til Grænlands.

Síðan létu þeir í haf og greiðast eigi byrinn mjög í hag þeim og komu þeir biskup og Einar í Holtavatnsós undir Eyjafjöllum á Íslandi. Þá bjó Sæmundur hinn fróði í Odda. Hann fór á fund biskups og bauð honum til sín um veturinn. Biskup þakkaði honum og lést það þiggja mundu. Einar var undir Eyjafjöllum um veturinn.

Það er sagt þá er biskup reið frá skipi og menn hans að þeir áðu á bæ nokkurum í Landeyjum og sátu úti. Þá gekk út kerling ein og hafði ullkamb í hendi.

Hún gekk að einum manni og mælti: "Muntu festa, bokki, tindinn í kambi mínum?"

Hann tók við og kvaðst mundu að gera og tók hnjóðhamar úr mal einum og gerði að og líkaði kerlingu allvel, en það var biskup raunar. Hann var hagur vel og er því frá þessu sagt að hann sýndi lítillæti sitt.

Hann var í Odda um veturinn og fór með þeim Sæmundi allvel. En til þeirra Arnbjarnar spurðist ekki. Ætluðu þeir biskup að hann mundi kominn til Grænlands.

Um sumarið eftir fóru þeir biskup og Einar af Íslandi og komu við Grænland í Eiríksfjörð og tóku menn við þeim allvel. Spurðu þeir þá enn ekki til Arnbjarnar og þótti það undarlegt og liðu svo nokkur sumur. Gerðist nú á umræða mikil að þeir muni týnst hafa.

Biskup setti stól sinn í Görðum og réðst þangað til. Var Einar honum þá mestur styrktarmaður og þeir feðgar. Þeir voru og mest metnir af öllum landsmönnum af biskupi.


Project Runeberg, Wed Aug 23 19:42:41 1995 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grthattr/1.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free